Réttaröryggi ferðamanna ógnað
Ferðaklúbburinn 4×4 gerir alvarlegar athugasemdir við ýmis sjónarmið sem fram koma í Hvítbók sem nefnd á vegum umhverfisráðuneytis, um endurskoðun náttúruverndarlaga, hefur unnið. Telur klúbburinn að réttaröryggi þeirra sem kjósa að fara um náttúruna öðru vísi en fótgangandi sé stórlega ógnað ef tillögur nefndarinnar ná fram að ganga. Hætta sé á að stór landsvæði verði með öllu lokuð fötluðum, öldruðum, fólki með ung börn og öðrum en þeim sem ekki hafa líkamsburði til að ganga langar leiðir.
„Við gerum einnig alvarlegar athugasemdir við skipan nefndarinnar en hún er eingöngu skipuð fólki sem vill takmarka verulega aðgengi almennings að landinu í nafni náttúruverndar. Slík skipan nefndar er dæmd til að skila niðurstöðu sem miðast við skoðanir og hagsmuni þröngs hóps í stað þess að endurspegla vilja og skoðanir alls almennings. Þá er ljóst að þessi nefnd hefur ekkert samband haft við stóran hóp náttúruunnenda innan t.d. SAMÚT. Ekki var heldur leitað eftir athugasemdum frá fjöldasamtökum ferðafólks á borð við Ferðaklúbbinn 4×4 sem telur um 5.000 félaga. Okkur er kunnugt um fjölmörg önnur útivistarfélög sem fengu ekki heldur tækifæri til að senda inn athugasemdir,“ segir Hafliði Sigtryggur Magnússon, formaður Ferðaklúbbsins 4×4.
Í athugasemdum Ferðaklúbbsins 4×4 er vakin athygli á þeirri staðreynd að sú meginregla hafi hingað til ríkt í íslensku réttarfari að það sé leyft sem ekki er sérstaklega bannað. Í tillögum nefndar um endurskoðun náttúruverndarlaga er lagt til að þessu verði snúið við og að gerður verði gagnagrunnur um alla þá vegi og slóða sem leyft sé að aka, en fari ferðamaður út fyrir þann ramma, jafngildi það utanvegaakstri og varði við lög. Segir í athugasemdum klúbbsins að í stað boða og banna af þessu tagi, sem kosti mikla fjármuni að fylgja eftir, væri nær að verja því fé til þess að efla fræðslu- og forvarnarstarf og bæta merkingu vega og slóða.