Stærsti hópurinn í ferð Litludeildar frá upphafi eða 56 bílar lögðu af stað á fallegum laugardagsmorgni frá Skeljungi við Vesturlandsveg kl. 09:00. Fyrsta stopp var á Hvolsvelli og siðan haldið upp hjá Keldum og stefnan tekin á Hrafntinnusker, síðan upp á Landmannaleið og til baka niður Landveg.
Við Laufafell var farið að bera á hálku og komin snjókoma sem sífellt var að aukast. Farið var að Dalakofa með helminginn af hópnum og hinn helminginn niður að nafnlausa fossi sem var kominn með þrjú nöfn þegar upp var staðið, „Nafnlausi fossinn“, Rúdolf og Lýsingur. Markarfljótið var ekki mikill farartálmi, en brekkurnar þar fyrir ofan voru erfiðar vegna hálku. Eftir samráð hjá fararstjórum var ákveðið að snúa við og fara niður að Dalakofanum og inn á Hekluleið sem liggur norðan við þetta þekkta fjall. Þar var ekin skemmtileg leið um úfið hraun og síðan komið að gatnamótunum Vatnafjallaleiðar og leiðinni vestan við Krakatinda.