Endurvarpinn á Hlöðufelli (rás 58) er að virka frábærlega vel. Á myndinni er reiknað útbreiðslukort og fyrstu prófanir sýna að endurvarpinn er að nást í samræmi við það og jafnvel betur. Hlöðufellið er að nást ágætlega í Reykjavík austanverðri og á nær öllu Suðurlandsundirlendinu (nema vestast). Líklega næst hann í Keflavík (nokkur dæmi eru staðfest á Reykjanesbrautinni) og jafnvel í Borgarnesi. Það þýðir að þeir sem búa á þessum stöðum geta náð beint að heiman í þá sem eru á ferð á t.d Langjökli og öllu svæðinu sunnan hans, sunnanverðum Kjalvegi, sunnanverðum Hofsjökli, Tungnárjökli og jafnvel Háubungu á Vatnajökli. Þetta eykur verulega fjarskiptaöryggi og auðveldar mjög að fá fréttir af umferð og færð.
Fjarskiptanefndin hvetur alla félaga í F4x4 til að fara til næsta þjónustuaðila og fá rás 58 í stöðvar sínar til að geta notað endurvarpann á Hlöðufelli.
N1 á Ártúnshöfðanum (Bílanaust) veitir okkur 50% afslátt af þessari forritun fyrir Yaesu stöðvar og þá kostar hún aðeins 1.000 kr. Þeir minna einnig á fastan afslátt til félagsmanna á öllum talstöðvarbúnaði. Hlöðufellið næst á planinu fyrir utan N1 á Höfðanum ef stöð og loftnet eru í góðu lagi. Þannig næst gott tékk á ástandi VHF stöðvanna í leiðinni.
Síðan minnum við þá sem eru á ferðinni á að hafa VHF stöðvar sínar á skönnun.
Fjarskiptanefnd.