Reykjavík 25. janúar 2010
Eins og fram kom í tilkynningu frá stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 17. janúar síðastliðinn verður lokað á skrifaðgang annarra en greiddra félagsmanna þann 1. febrúar næstkomandi. Lokunin gildir um alla þræði aðra en þá sem snúa að auglýsingum. Rétt er að fram komi að stjórn er einnig með til skoðunar að loka fyrir skrifaðgengi að auglýsingaþráðunum, og þar með innsetningu auglýsinga, fyrir aðra en greidda félagsmenn. Sama gildir um innsetningu mynda í myndaalbúm vefsíðunnar. Um þau atriði hefur þó ekki verið tekin endanlega ákvörðun og því kemur sú lokun ekki til framkvæmda að sinni. Ef horft er til þeirra skoðanaskipta sem átt hafa sér stað undanfarna daga þá er það mat stjórnar að umræðan hafi um margt verið gagnleg. Hún kemur þó ekki til að hafa áhrif til breytingar á fyrri ákvörðun. Rétt er að ítreka að einungis er verið að tala um takmörkun á skrifaðgengi að vefnum, lesaðgengi verður áfram opið að því undanskildu að Innanfélagsmálin verða einungis aðgengileg þeim sem eru skráðir félagar og með sín félagsgjöld í skilum líkt og verið hefur. Varðandi heimildir stjórnar til þessara aðgerða þá er vísað til aðalfundar frá árinu 2008 en á þeim fundi komu fram tillögur um að loka spjallþráðunum sem vísað var til nýrrar stjórnar félagsins til frekari umræðu og aðgerða ef svo bæri undir. Rétt er að fram komi að á þeim fundi var talsverður fjöldi félagsmanna úr landsbyggðadeildunum. Þetta var auk þess kynnt nýverið á félagsfundi í Reykjavík þar sem á annað hundrað félagsmenn voru mættir og komu þar ekki fram neinar athugasemdir við þessar fyriráætlanir stjórnar sem verða, eins og áður sagði, að veruleika 1. febrúar næstkomandi. Mun þetta gilda um þá sem ekki hafa greitt félagsgjald vegna núverandi reikningsárs en það var á eindaga 31.12.2009.
Stjórn F4x4