Nú er almenn skráning hafin í janúarferð Litlunefndar.
Eins og flestir hafa orðið varir við hafa veðurguðirnir ekki verið okkur hliðhollir í vetur hvað varðar vetrarfæri. Af þeim sökum höfum við í Litlunefndinnni ákveðið að breyta út af áður auglýstri ferðaáætlun. Ætlunin var að reyna við Skjaldbreið, en vegna snjóleysis er slíkt ekki mögulegt. Ekki er heldur útlit fyrir að bæti í snjóalög fram að 19. janúar og því er Skjaldbreiður úr sögunni. Hins vegar er langtímaveðurspáin mjög hagstæð hvað varðar ferðir á Langjökul þessa helgi. Spáð er frosti og rólegu veðri fram að ferðadegi og því eru miklar líkur á hörðu og góðu færi á jökulinn þennan dag, ef að veðurspár ganga eftir. Við stefnum því á Jaka og að fara upp á jökulinn þar og keyra örugga leið undir stjórn farastjóra upp á hábungu jökulsins.
Við hvetjum alla áhugasama til að taka frá daginn og koma með okkur í skemmtilega ferð á Langjökul. Skráningarformið má finna hér.
Kynningarfundur fyrir ferðina verður haldin í félagsheimili ferðaklúbbsins að Eirhöfða 11, miðvikudaginn 16. janúar klukkan 20:30. Að fundinum loknum verður svo boðið upp á stutt kynningarnámskeið í jeppamennsku.
Bestu kveðjur og sjáumst hress,
Litlanefndin