Vinnuferð var farin á vegum skálanefndar Seturs helgina 28. til 29. ágúst sl. Til hennar mættu á endanum fjórir frá skálanefnd ásamt þremur fullorðum, einum ungling og einu barni. Á föstudagskvöldinu gistu með okkur í skálanum sex hjólamenn og yfirgáfu þeir skálann á laugardagsmorgninum og létu vel af húsakosti og vist. Tekið var vel til hendinni þessa helgi. Grafið var fyrir pallaundirstöðum framan við skálann og steyptir niður staurar og smíðaður pallur fyrir framan klósettin og að inngangi norðanmegin og mun það gera allt aðgengi að skálanum mun betra. Eftir er að klæða dekkið á pallinn og verður það gert í ferð sem áformuð er í lok setember. Bráðabirgðaklæðning var sett á pallinn sunnanmegin þar sem alltaf er gengið inn á sumrin og er því aðgengið gott þeim megin en óklætt er norðanmegin og eru þeir sem eru á ferðinni þarna beðnir um að taka tillit til þess. Ráðist var í þakmálningu, náðist að skrapa þakið á skálanum og grunna í blettina en ekki náðist að mála endanlega þar sem rigning setti strik í reikninginn. Ekki er því víst að málningarvinna klárist fyrir veturinn úr því sem komið er. Rennsli í klósettkassana virðist nú komið í lag eftir að formaður skálanefndar fór hamförum inni á klósettunum og reif allt í tætlur, boraði, græjaði og gerði og tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að klúðra öllu saman aftur þannig að það virkaði. Einnig var tekið til í kringum skálann og er nú aðkoma að honum þokkaleg. Tveir gluggar í risi gamla skálans sem eftir var að mála að utan voru síðan skrapaðir og málaðir. Afrek helgarinnar hlýtur samt að teljast sú framkvæmd að klára þakkant hússins, sem hefur verið ófrágegninn síðan klósettviðbyggingin var byggð og er nú ásjóna hússins allt önnur og fallegri. Ekki má gleyma að nefna að yngsti þáttakandinn í ferðinni, hún Herdís Ásta tók sig til og málaði nokkra steina á planinu af miklum dugnaði. Á laugardagskvöldinu var svo grillað að hætti skálanefndar og tóku menn vel til matar og hóflega til drykkjar. Í heildina séð höldum við í skálanefnd að húsið sé nú að verða þokkalega búið fyrir veturinn og ætti hverjum þeim sem telja sig til fjallamanna ekki að vera nokkur vorkunn að gista þar. Skálanefnd vill þakka þeim ofvirku einstaklingum sem tóku þátt í þessari vinnuferð fyrir frábært framlag til skálans og vonast til að njóta krafta þeirra seinna meir.
F.h. skálanefndar, Logi Már.