Ágætu félagar.
Í ár eru liðin 25 ár frá því að fyrsti áfangi Setursins var reistur og tekinn í notkun. Þetta var mikill áfangi í sögu Ferðaklúbbsins. Siðan þá hefur verið byggt áfram og stækkað, byggt hefur við húsið, anddyri bætt við, Setan kom síðar og klósettviðbótin kringum 2007. Þetta hefur verið mikið starf sem margir félagar hafa komið að og lagt sitt af mörkum til þess að meðlimir Ferðaklúbbsins geti átt sinn sameiginlega samastað á fjöllum. Nú, á afmælisári félagsins hefur enn verið bætt við, neyðarskýli hefur risið. Er þessi nýjasta viðbót til mikilla bóta, bæði fyrir aðstöðu skálanefndar, sem fengið hefur gott vinnu og geymslupláss, öll olíumál svæðisins eru komin undir eitt þak og mengunarvarnir orðnar góðar, hægt er að koma bílum inn til viðgerðar og síðast en ekki síst, ásýnd svæðisins er orðin allt önnur, gámurinn og olítankar horfnir sjónum og svæðið til sóma hvað aðkomu og útlit varðar.
Nú, á þessum tímamótum langar okkur sem skipum skálanefnd Seturs ásamt stjórn Ferðaklúbbsins að fagna þessum áfanga. Boðið er því til afmæliskaffis í Setrinu, laugardaginn 17. ágúst þar sem rjómavöfflur og fleira góðgæti með kaffinu verður í boði. Frí gisting verður einnig í boði fyrir félagsmenn þessa helgi meðan húsrúm leyfir. Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta og ekki væri verra er gítarfærir einstaklingar myndu taka hljóðfæri sín með þannig að við getum öll átt skemmtilega kvöldstund á laugardagskvöldinu. Við skálanefndarmenn verðum komnir á svæðið á föstudeginum og geta félagsmenn að sjálfsögðu komið á föstudeginum ef þeir vilja og gist tvær nætur. Það er ósk okkar að þeir sem ætla að koma tilkynni sig á spjallþræði sem stofnaður verður á heimasíðu félagsins eða í pósti á skalanefnd@f4x4.is
Með Kveðju.
Skálanefndarmenn í Setri.